Þessi skemmtilegi frasi Intrum á Íslandi hefur tröllriðið íslensku þjóðinni síðastliðna mánuði.
Í gær var fjármálaráðstefna sveitarfélaga haldin hér á Nordica og voru Intrum auðvitað mættir á svæðið ásamt fleirum úr fjármálageiranum og hér var mikið partý. En það sem mér fannst langathyglisverðast var að Intrum voru með bjór í boði fyrir gesti og á þá var búið að líma nýja límmiða, á þeim stóð: "EKKI GERA EKKI NEITT .....sem þú sérð eftir á morgun."
Þetta finnst mér alveg stórfenglegt! Held reyndar að þetta hafi nú ekki komist til skila miðað við ástand á sumu fólki. En sniðugt samt.

Ég er kannski lame og gamaldags en mér finnst að það ætti að auglýsa meira svona. Fólk er stundum í svo annarlegu ástandi, undir svo svaðalegum áhrifum áfengis að það veit ekki muninn á réttu eða röngu og gerir bara... eitthvað. Stundum er það mjög slæmt, ég verð mikið vör við það núna eftir að ég byrjaði að vinna næturvaktir, sumt fólk kann alls ekki sín takmörk og gengur alltaf skrefinu of langt, stundum nokkrum skrefum of langt.
Ég hef mikið pælt í þessu eftir að ég flutti heim frá Englandi. Íslendingar kunna ekki að fara með áfengi. Engan veginn!
Úti drekkur fólk nokkra bjóra og eitthvað sér til skemmtunar, til að hafa gaman.
Hér á landi drekkur fólk þar til það skilar því aftur og getur ekki gengið lengur. Hvar er gamanið í því? Ég er auðvitað ekki að alhæfa neitt, veit að hvort tveggja fyrirfinnst í báðum löndum en hér er þetta svo miklu augljósara.
Æi fyrirgefiði vælið í mér en mér finnst bara drykkjumenning Íslendinga gersamlega vera löngu búin að missa marks. Síðan eru allir að tala um að lækka kostnaðinn á áfengi? Ónei! Fyrst þarf landinn að læra að meðhöndla þetta.